146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:53]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. starfandi forseta fyrir að hafa séð til þess að skilaboðum til hæstv. forseta Unnar Brár Konráðsdóttur um að þessi umræða ætti sér stað núna hafi verið komið til skila og skilaboðin aftur borin til okkar inn í þingsal. Þetta skiptir máli. En ég verð að segja að eftir það hvernig þessi umræða hefur farið af stað er maður óneitanlega mjög hugsi yfir því að gert sé samkomulag um ræðutíma þar sem þingmenn afsala sér í raun hluta af málfrelsi sínu í þeim tilgangi að allir geti tekið þátt og átt mikilvægar og nauðsynlegar umræður við hæstvirta ráðherra. Af hverju ættum við sem viljum eiga þessar umræður að gefa eftir okkar tíma til einhverra sem svo nýta sér hann ekki? Mér finnst þetta gríðarlega umhugsunarvert. Og mig langar þess vegna að fara þess á leit (Forseti hringir.) við hæstv. forseta að fundi verði frestað meðan þetta verður rætt á vettvangi þingflokksformanna. Svo getum við haldið áfram að ræða almennilega um pólitíkina og undir einhverju skipulagi.