146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Auðvitað er bagalegt að samkomulag um fundartíma haldi ekki nema í einn og hálfan tíma. Auðvitað er bagalegt að við þurfum helst að gera hlé á þessum fundi, setjast niður og semja upp á nýtt. Eins og fram hefur komið lýsir þetta líka djúpstæðara vandamáli, þetta lýsir því að stjórnarþingmenn, allir nema einn, hafa hunsað þessa umræðu til þessa. Þeir hefðu getað verið þrír á hvorn ráðherra. Fimm hv. stjórnarþingmenn nýttu sér ekki tækifæri sitt til að taka til máls um ríkisfjármálaáætlun næstu fimm ára, eitt af stærstu málum hvers þings.

Munum eftir þingsköpum Alþingis. Þetta er vinnustaður sem einhverjar reglur gilda um.

Skylt er þingmanni að sækja fundi nema forföll leyfi annað.

Hvar er allt fólkið? Af hverju sitjum við, þingmenn stjórnarandstöðunnar, hérna og röflum hvert við annað yfir því að stjórnarliðar skrópi og vilji ekki tala um málið? Er þetta það sem við erum kosin til að gera, að dandalast úti í bæ frekar en að tala um fjármálaáætlun?