146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:08]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hlýt að kalla eftir því að hv. þingflokksformenn Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins geri hér grein fyrir því hvort þeir hafi rætt við sitt fólk með hvaða hætti dagskráin ætti að fara fram hér í dag. Hv. þingmaður sem var á undan mér var að segja að fólk hefði skilið samkomulagið með mismunandi hætti.

Hér eru frátekin „slott“ til umræðu handa hverjum þingflokki, eitt á mann, og einhver þingflokkur hefur ákveðið í einhverjum tilteknum málaflokkum hjá einhverjum ráðherrum að nýta sér það ekki. Gott og vel, það hefði ekkert þurft að vera yfir alla, kannski bara suma. Hv. þm. Pawel Bartoszek sagði að hann ætlaði að taka þátt í því sem sneri að honum og þeim nefndum sem hann væri í. Fínt, en hvað ætla hinir þingmenn stjórnarliðanna að gera? Hv. þingflokksformenn stjórnarliðanna hljóta að þurfa að segja okkur það. Birgir Ármannsson, Hanna Katrín Friðriksson og Theodóra S. Þorsteinsdóttir hljóta að þurfa að segja okkur hvað þau sögðu við sitt fólk. Vissu þau öll þrjú (Forseti hringir.) að fólkið þeirra ætlaði ekki að nota „slottið“? Af hverju sömdu þau þá svona um þetta?