146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:12]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við sömdum um ákveðin atriði. Eitt var það að ráðherrar ríkisstjórnarinnar yrðu hér til að eiga við okkur orðastað. Það hefur nú þegar brugðist í því að tveir ráðherrar verða ekki hér heldur staðgenglar þeirra. Við sömdum um að allir flokkar tækju þátt í skoðanaskiptum, kannski til að reyna að breyta um stíl frá því sem var þegar við ræddum fjármálastefnuna þar sem ekki nema þrír hv. þingmenn stjórnarliðsins tóku til máls.

Við erum ekki að reyna að lengja til að vera leiðinleg, við erum ekki að reyna að gera þetta að einhvers konar sirkus eða havaríi. Það sem við erum að reyna að gera er að eiga mikilvæg og góð skoðanaskipti um ótrúlega mikilvægt plagg sem mun hafa áhrif á þetta land til fimm ára. Þetta er ekki leikur, herra forseti, en það er verið að koma fram við þetta sem leik og við förum fram á að það verði gert almennilega, að allir taki þátt sem geta tekið þátt (Forseti hringir.) og að umræðurnar verði góðar.