146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Á næsta ári fögnum við 100 ára afmæli fullveldis þjóðarinnar. Við getum verið stolt af okkur Íslendingum að hafa sýnt umheiminum að þrátt fyrir fámennið erum við fullgild, sjálfstæð þjóð sem hefur rödd í samfélagi þjóðanna og getur staðið á eigin fótum. Meginmarkmið utanríkismála er að verja hagsmuni íslensku þjóðarinnar á alþjóðavettvangi og helstu verkefni utanríkisþjónustunnar snúa að þróunarsamvinnu, mannúðarmálum, mannréttindum, öryggis- og varnarmálum, utanríkisviðskiptum, borgaraþjónustu og þjóðarétti.

Utanríkisþjónusta okkar er ein sú minnsta í Evrópu enda þjóðin fámenn. Það kallar að sjálfsögðu á forgangsröðun verkefna og hagkvæman rekstur. Það eru tímar mikilla breytinga í heiminum, og í breytingum felast að sjálfsögðu tækifæri jafnt sem áskoranir. Í því efni hefur verið settur á fót stýrihópur sem er ætlað að kortleggja starfsemi utanríkisþjónustunnar og leggja til hvernig bregðast skuli við þróuninni á næstu árum. Hópurinn á að skila tillögum í haust. Starfsemi allra sendiskrifstofa verður skoðuð, hvaða ávinningi eigi að skila og hvernig breytt heimsmynd hefur áhrif á forgangsröðun þjónustunnar.

Stærstum hluta fjárheimildarinnar, ríflega þriðjungi, er varið til þróunarsamvinnu. Markmiðið með þróunarsamvinnunni er að draga úr fátækt og stuðla að almennri velferð í heiminum á grundvelli jafnréttis og sjálfbærrar þróunar. Í þessari fjármálaáætlun er fylgt eftir fyrri áætlun um að auka framlag Íslands í 0,26% af þjóðartekjum á næsta ári og gert er ráð fyrir að hlutfallið verði óbreytt út tímabilið. Þessi aukning og spá um auknar þjóðartekjur skýra stóran hluta hækkunar fjárheimilda til utanríkismála á næstu árum.

Utanríkisviðskipti eru annað mikilvægt verkefni utanríkisþjónustunnar. Gróft áætlað er um fjórðungi af framlögum til utanríkismála varið í utanríkisviðskipti. Meginmarkmið þessa verkefnis er að standa vörð um efnahags- og viðskiptahagsmuni Íslands á erlendri grundu. Eitt mikilvægasta verkefni íslenskra stjórnvalda þessi misserin er að búa í haginn fyrir viðræður um framtíðarskipan samskipta Íslands við Bretland eftir útgöngu þess úr ESB. Markmiðið verður að tryggja að íslenskir aðilar hafi greiðan aðgang að breskum mörkuðum. Megnið af fjárframlögum til öryggis- og varnarmála fer í rekstur og viðhald varnarmannvirkja á Íslandi auk þess sem auknum fjármunum er varið til borgaralegrar þátttöku í verkefnum NATO.

Því sem eftir stendur af fjárheimildum þjónustunnar er varið í borgaraþjónustu og framlög til alþjóðastofnana, þessi hefðbundnu utanríkismál.

Málefni norðurslóða hafa á undanförnum árum orðið æ fyrirferðarmeiri og hagsmunir Íslands eru þar miklir. Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu af Finnum vorið 2019 og gegnir henni í tvö ár. Formennskan verður meðal stærstu verkefna sem Ísland hefur tekið að sér á alþjóðavettvangi og mun krefjast mikils og vandaðs undirbúnings. Þá mun Ísland sinna formennsku meðal Norðurlanda og Eystrasaltsríkja innan Alþjóðabankans á sama árabili og í Norðurlandasamstarfi árið 2019.

Í áætluninni er gert ráð fyrir tímabundnum auknum fjárframlögum til utanríkismála á næstu árum vegna þessara verkefna.

Að öðru leyti gerir áætlunin ráð fyrir að framlög vegna utanríkisþjónustunnar verði nokkuð stöðug á tímabilinu. Um 12% af fjárheimildunum er varið í samningsbundin framlög til alþjóðastofnana. Framlögin eru nokkuð stöðug ár frá ári en vaxa með þjóðartekjum ef frá eru talin framlög Íslands til Uppbyggingarsjóðs EES sem eru sveiflukennd og hækka mikið á tímabilinu.

Mikilvægi borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins hefur vaxið mikið á undanförnum árum með auknum fjölda Íslendinga erlendis. Nú búa yfir 40.000 íslenskir ríkisborgarar erlendis og þeir sem búa á Íslandi fara í yfir 500.000 ferðir til útlanda hvert ár. Meginmarkmið borgaraþjónustunnar er að standa vörð um hag þessara borgara okkar á meðan þeir dvelja erlendis. Verkefnin eru margvísleg, allt frá því að útvega þeim neyðarvegabréf í það að skipuleggja umfangsmiklar aðgerðir vegna neyðarástands erlendis. Þessu gæti okkar smáa utanríkisþjónusta tæpast og varla sinnt vel án þess að njóta góðs af sjálfboðavinnu yfir 240 kjörræðismanna um allan heim.

Ég læt máli mínu lokið, virðulegi forseti.