146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:19]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil ítreka orð mín og harma það að við séum hér að fjalla um fjármálaáætlun til næstu fimm ára í fjarveru tveggja fagráðherra. Hingað er hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sendur til að svara fyrir hvernig fjármálum utanríkismála verði háttað næstu fimm árin, með fullri virðingu. Ég ætla að vona að hann sé vel inni í málaflokknum því að hér eru næg tíðindi. Stærstu tíðindin er varða utanríkismálin er mikill niðurskurður á ætluðum framlögum til þróunarsamvinnu.

Virðulegi forseti. Í þessari fjármálaáætlun er horfið frá vilyrðum um áætluð framlög til þróunarsamvinnu sem samþykkt voru á Alþingi af öllum þingmönnum nema Vigdísi Hauksdóttur vorið 2013. Það er ekki boðlegt, virðulegi forseti, vegna þess að á sama tíma og hér er upplýst um markmið, viðhorf og framlag ríkisstjórnarinnar og hæstv. utanríkisráðherra til þróunarsamvinnu — því að samkvæmt fjármálaáætluninni verður 0,26% af vergum þjóðartekjum varið til þróunarmála á ári hverju út tímabilið — hefur Ísland undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um að fylgja markmiði Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki veiti 0,7% af vergum þjóðartekjum sínum til þróunarsamvinnu. Ekkert, nákvæmlega ekkert, bólar á því að Ísland muni uppfylla þessi markmið næstu fimm árin. Og það í boði ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar.

Minnumst þess, og skömmumst okkar fyrir það, að með þessu náum við ekki framlagi nágrannaríkjanna á Norðurlöndum sem öll hafa veitt 0,7% til þróunarmála um áraraðir.

Virðulegi forseti. Þetta er hneyksli og mikil er skömm ríkisstjórnarflokkanna að styðja þessi áform. Við efnahagslegan uppgang vill Sjálfstæðisflokkurinn þetta og utanríkisráðherra þess flokks en að Viðreisn og Björt framtíð styðji niðurskurð til þróunarmála af þessu tagi er ótrúlegt. Hvert eru þessir flokkar eiginlega komnir í tilveru sinni? Og það er ekki boðlegt að koma hér upp (Forseti hringir.) og svara fyrir það að hér sé um krónutölur að ræða. Hér eru þessi viðmið reiknuð út frá prósentutölu. Hvar á að loka í þróunarsamvinnunni? Hverju á að segja upp og á að opna eitthvað í staðinn? (Forseti hringir.) Ég vænti þess að fá einhver svör frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra.