146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:23]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta þykir mér afar sorgleg vörn hjá hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála. Það er margt fleira í þessari fjármálaáætlun sem er hneykslanlegt. Það hneykslanlega lágt framlag ríkisstjórnarinnar til þróunarsamvinnu og þróunarmála sem haldast hér í 0,26% af vergum þjóðartekjum á hverju ári næstu fimm árin. Það er ekki hreyft við þeim. Og jafnvel þó að hæstv. ráðherra grípi til þeirrar aumu varnar að fella málefni hælisleitenda og kvótaflóttamanna undir verkefnasvið utanríkisráðuneytisins, það þykir manni ansi aumlegt, og það er með öllu óskiljanlegur texti um það nákvæmlega, á bls. 64, að innan þessa prósentuhlutfalls rúmist stór hluti útgjalda vegna hælisleitenda og móttöku kvótaflóttamanna. Þetta rímar engan veginn við það að þessi málefni séu undir ábyrgð utanríkisráðuneytisins.

Ég vil líka beina annarri spurningu til hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála sem fjallar um framlög til öryggis- og varnarmála, sem hæstv. utanríkisráðherra hefur talað mikið um að þurfi að endurskoða en minna útskýrt nákvæmlega hvað hann á við. Hér er sagt að allnokkur endurnýjun á rekstri varnarmannvirkja og starfrækslu ratsjárkerfisins standi fyrir dyrum, en ekkert er útskýrt hvert framlag Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar verður nákvæmlega til þessa málaflokks. Getur hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála útskýrt það fyrir mér? Og ég bið hæstv. ráðherra um að grípa ekki til krónutöluvarnarinnar því að í samanburði við önnur iðnríki stöndum við okkur afar illa og það skiptir máli hverjir stjórna hér, virðulegur forseti. Í tíð vinstri stjórnarinnar, stjórnar VG og Samfylkingarinnar, voru gerðar (Forseti hringir.) metnaðarfullar áætlanir um að hækka framlög til þróunarsamvinnumála í 0,46% af vergum þjóðartekjum á ári. Það eru allt aðrar efnahagslegar aðstæður sem nú ríkja í íslensku samfélagi. Hvernig menn geta falið sig á bak við þessar röksemdafærslur er með öllu ótrúlegt.