146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:41]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir það. Það hjálpar mér hins vegar ekkert því að ég var einmitt búin að lesa mjög vel kafla númer 29 um fjölskyldumálin. Til að benda á það er gert ráð fyrir að á milli áranna 2018 og 2019 aukist fjárveitingar til fjölskyldumála um 400 milljónir en hér undir erum við m.a. að fara að byggja nýtt meðferðarheimili, bæta í fæðingarorlofið, ætlum að vísu að draga saman í barnabótunum. Ég á mjög erfitt með að sjá nákvæmlega fjármuni varðandi aukninguna. Það er eina ástæðan fyrir því að ég er að kalla eftir þessu og spyrja um það. Ég geri mér grein fyrir því að það er nokkuð erfitt að reyna að troða því undir menntamálaráðuneytið. Ég einfaldlega sé ekki fjármunina í áætluninni. Það hlýtur að vera eitt af því sem þingið verður að bæta í til að tryggja að við getum gert það sem hér segir að sé ætlunin að gera. Svo ég fari enn á ný í gegnum tölurnar: Ef það er ætlunin að taka á móti 50 manns, eins og við höfum reynt að gera undanfarin ár, erum við að tala um 5 milljónir á mann, þ.e. 250 milljónir yfir fjögur ár. Þetta eru háar upphæðir, en við verðum einfaldlega að gera ráð fyrir þeim.

Ég vil líka fá að bakka utanríkisráðuneytið upp hvað þetta varðar. Það er verið að nefna lykilstofnanir sem skipta gífurlegu máli sem ströggla virkilega, m.a. varðandi afstöðu stjórnvalda í Bandaríkjunum gagnvart starfsemi Sameinuðu þjóðanna. Það verður svo sannarlega kallað eftir því frá okkur og öðrum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna að bæta í þegar kemur að mannúðaraðstoð. Þessar tæpu 700 milljónir sem hér eru duga mjög skammt.