146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:50]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur andsvarið. Ég er í sjálfu sér ekki í liði með neinum. Það breytir ekki því að veruleikinn er sá að Bretar hafa ákveðið að segja skilið við Evrópusambandið. Það er sá veruleiki sem við, þessi örþjóð, þurfum að takast á við í þessu sambandi. Það er verkefni utanríkisráðuneytisins að takast á við það og greinilegt á þeirri litlu vitneskju sem ég hef um málið að utanríkisráðuneytið er komið í fullan gang með að búa sig undir þær breytingar og takast á við þann veruleika sem af því leiðir. Við getum haft á því skiptar skoðanir hvort þetta var rétt eða rangt en það breytir ekki stöðunni, þetta er veruleiki sem við þurfum að takast á við í dag. Mér finnst utanríkisráðuneytið og -þjónustan vera að reyna að gera það.

Ég vil að lokum segja við hv. þingmann að ég geri ráð fyrir að sá sem gegnir stöðu utanríkisráðherra, þegar hann hefur viðveru hér á landi, fái þá umfjöllun sem hér hefur átt sér stað, hvort tveggja af því að lesa þær ræður sem hér verða haldnar um fjármálaáætlunina en ekki síður fróðleik frá þeim ágætu embættismönnum sem fylgjast með umræðunni og eru mér til fulltingis við þessa umræðu.