146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:52]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er nokkuð sérkennilegt að vera að beina orðum til staðgengils utanríkisráðherra sem svaraði mér því áðan sem hæstv. menntamálaráðherra að hann gæti ekki svarað fyrir um menntaskortinn því að það væri á könnu félagsmálaráðherra og þetta væri svo afmarkað milli ráðherra, þeir væru ekki mikið að blanda sér í málefni annarra. Ég held reyndar að heimurinn sé ekki svo uppskiptur að mál flæði nú ekki milli markalína. Því ætla ég að halda mig í almennri umræðu um mál sem sannarlega snúa að öllum ráðherrum.

Í fjármálaáætlun er talað um að íslensk stjórnvöld styðji markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu til þróunarsamvinnu. Síðar á síðunni er sagt að þörfin fyrir mannúðaraðstoð hafi aldrei verið meiri og málefni flóttafólks hafi verið ofarlega á baugi síðustu misseri jafnt á Íslandi sem annars staðar.

Nú er mér kunnugt um að hæstv. ráðherra greiddi atkvæði með þingsályktunartillögu sem gerði ráð fyrir að við myndum spýta í eftir efnahagshrunið og bæta aðeins og vera ekki alger dragbítur á þessu samstarfi og koma okkur upp í 0,42% árið 2016. Það er hins vegar ekkert gert með það. Við erum föst í þessari tölu, 0,26, og verðum það út tímabilið. Mér finnst það ömurlegt, ekki síst þegar við erum rík þjóð og búum á landi allsnægta og flest okkar eiga afar og ömmur sem bjuggu við örbirgð og vissu hvað það þýddi að búa við fátækt. Ég vil heyra viðhorf ráðherra. Finnst honum þetta nógu metnaðarfullt? Gæti hann hugsað sér að beita sér aðeins fyrir því að spýta í lófana, eins og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir kom inn á áðan?