146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek undir að það er einkennilegt að þurfa að eiga orðastað við staðgengil viðkomandi fagráðherra. En þannig er einfaldlega veruleikinn. Ég segi fullum fetum að það gefast örugglega tækifæri til að eiga beinan orðastað við utanríkisráðherra um hvaðeina sem málaflokkinn snertir ef leitað er eftir því. Ég dreg það ekki í efa. Það er spurningin um að koma því einfaldlega fyrir.

Varðandi þá spurningu, umræðu og hugleiðingu sem hv. þingmaður kom með um þróunaraðstoðina er alveg rétt að við höfum sett okkur ákveðin markmið. Við höfum hingað til ekki treyst okkur til að ná þeim. Það sem ég benti á í andsvari við þingmann áðan var að samkvæmt mínum upplýsingum er einungis verið að hækka framlagið í prósentum talið úr 0,25 í 0,26. Það er rétt að gert er ráð fyrir að það standi til loka tímabilsins.

Við getum vissulega gert betur. Ég er alveg sammála því sjónarmiði sem undirliggjandi er hjá hv. þingmanni. Við getum og eigum að leggja til þessara mála. Ég vil þó minna á að það er gert með ýmsum hætti. Ég er þeirrar skoðunar að við getum gert meira af því að veita fólki skjól hér hjá okkur en við höfum gert. Við höfum allar aðstæður til þess að gefa fólki færi á að leita til okkar í hlé og skjól frá þeim hörmungum sem á því dynja víða um veröld. Ég held því fram að það verði töluvert langur vegur (Forseti hringir.) þar til við munum ná að uppfylla þá tillögu og þingsályktun sem hv. þingmaður nefndi í máli sínu um að við verjum um 0,40% af þjóðarframleiðslu til þróunaraðstoðar. Ég held að langt líði þar til við náum því.