146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:57]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vona að hæstv. ráðherra misvirði ekki við mig að ég hafi nefnt staðgengilshlutverkið. Ég hef alltaf gaman af að tala við þennan ákveðna ráðherra. Kannski hefði verið eðlilegt að forsætisráðherra hefði hlaupið í skarðið, hann er þó allavega sá sem er kápan yfir öllu bixinu.

Í framhaldi af orðum hæstv. ráðherra vil ég spyrja, af því að nú er þetta þingsályktunartillaga sem er borin fram af hæstv. fjármálaráðherra: Hefði ekki verið meiri bragur að því að þegar lá fyrir hvernig þetta yrði að þingið hefði lagt fram nýja þingsályktunartillögu og sett fram ný markmið, þannig að alla vega væri klárt að það er þingið sem gefur fyrirskipun um hvernig við ætlum að haga málum okkar en ekki ráðherra sem fer gegn gildandi þingsályktun? Ég veit það ekki. Ég er nýr og kann þetta ekki.

Það kom fram í andsvari við hv. þm. Smára McCarthy að við hefðum lítinn mannafla og kraft til að sinna EES-samningnum og ESB og Brussel og öllu því. Í ágætri grein eftir Kristján Guy Burgess í Vísi í síðustu viku kemur fram að þegar Sigmundur Davíð hafði verið forsætisráðherra í tvo mánuði hafði hann heimsótt framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, NATO, æðstu ráðamenn ESB, forsætisráðherra Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands, formann landsstjórnarinnar í Færeyjum og áfram gæti ég haldið. Á þeim tíma sem hæstv. forsætisráðherra hefur starfað hefur hann ekki hitt einn erlendan þjóðhöfðingja ef frá er skilið að hann fór á ágætisjafnréttisráðstefnu til New York sem skilaði örugglega ágætisárangri. Höfum við ekki ótrúlega mikla þörf fyrir að höfuð okkar í stjórnkerfinu sé á faraldsfæti og myndi tengsl við ráðamenn (Forseti hringir.) úti um allan heim í þeim síhvikula og hættulega heimi sem við erum að fóta okkur í núna?