146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að beina nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að ferðaþjónustan færist upp í efra þrep virðisaukaskattskerfisins og skili inn einhverjum 9 milljörðum á hálfu ári og 18 milljörðum á ársgrundvelli. Þessar fjárhæðir eiga eftir að lækka eitthvað þegar efra þrepið lækkar árið 2019. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort gerð hafi verið greining á því hvað þetta þýðir fyrir ferðaþjónustuna, landsvæði og ýmis sprotafyrirtæki og hver áhrifin eru á fjölgun ferðamanna og neyslumynstur þeirra. Hverju skilar það í raun í tekjum fyrir ríkissjóð þegar lækkunin kemur 2019? Er þetta eingöngu hugsað til að einfalda skattkerfið? Sjálfstæðismenn sögðu fyrir kosningar að ekki yrðu lögð aukin gjöld á ferðaþjónustuna. Þá er verið að svíkja það loforð. Verða einhverjar mótvægisaðgerðir gagnvart sprotafyrirtækjum í ferðaþjónustunni? Ég hef ekki áhyggjur af stóru risunum í ferðaþjónustunni, að þeir geti ekki búið við þetta. Hafa komugjöld eitthvað verið skoðuð? Komugjöld fyrir 2,5 milljónir ferðamanna myndu skila um 3 milljörðum ef 1.500 kr. legðust á flugmiða. Verður framlag til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða eingöngu hækkað um 200 milljónir og verður það þannig út þetta tímabil?