146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:29]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni góðar spurningar. Já, það voru vissulega unnar greiningar á áhrifum og afleiðingum af þessari breytingu. Það var gert í fjármálaráðuneytinu og með sérfræðingum úr atvinnuvegaráðuneytinu þegar þetta kom til skoðunar. Þetta er einföldun á skattkerfinu og hefur verið stefna stjórnvalda í nokkurn tíma að reyna að fækka þeim sem eru í undanþáguþrepi og færa upp í almenna þrepið. Þetta er ákveðin kerfisbreyting.

Til lengri tíma er ekki hægt að segja að þetta sé skattalækkun heldur að það jafnist u.þ.b. út. Ég veit ekki nákvæmlega hvað spáin segir, hvort þetta eru 2–3 milljarðar í auknar tekjur fyrir ríkissjóð.

Varðandi Framkvæmdasjóð ferðamannastaða eru 200 milljónir til viðbótar þar inni og verða út þetta tímabil. En það er ekki hægt að horfa lengur á Framkvæmdasjóð ferðamannastaða einan og sér heldur verður að taka landsáætlunina með inn. Við erum að setja fjármuni í hana og leggja til, ef frumvarpið kemst í gegnum þingið, að við tökum út svæði sem eru í eigu ríkisins og færum slíkar framkvæmdir algerlega inn í landsáætlunina. Þá er þessi sjóður með 200 milljónir kr. til viðbótar og hægt að ráðstafa þeim fjármunum til sveitarfélaga og einkaaðila. Það er þá úr meiru að spila fyrir þá þætti. Svo erum við með til hliðar landsáætlun og sömuleiðis er hugmyndin með framkvæmdasjóðnum að hann sé einmitt stýritæki til að koma á seglum úti um land.

Varðandi þetta með svæðin hefur það sömuleiðis verið greint. En mér finnst mikilvægt að það komi fram að stjórnvöld hafa augun sérstaklega á landsbyggðinni. Það er stefna stjórnvalda að dreifa ferðamönnum um landið. Ég held að gagnlegra sé, (Forseti hringir.) fyrst tekin hefur verið ákvörðun um að færa þessa atvinnugrein upp í almenna þrepið, að við séum þá með sértækar aðgerðir fyrir landsbyggðina.