146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það væri mjög gott að vita hvar maður getur fengið að sjá þessar greiningar og gengið að þeim. Það hefur komið fram hjá samtökum úr ferðaþjónustunni að ekkert samráð hafi verið haft við ferðaþjónustuna og mjög mikilvægt að þetta sé gert með góðum fyrirvara og undirbúningi og greiningu.

Nú boðar ríkisstjórnin áætlun um orkuskipti til ársins 2030 og að auka endurnýjanlega orkugjafa, að hlutur þeirrar orku verði 40% árið 2030. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hver er í raun aukning fjármuna til orkuskipta og til að mæta loftslagsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna á næstu fimm árum? Hvaða fjármunir eru eyrnamerktir þeim málaflokki? Það kemur fram hér að það sé lækkun á milli áranna 2017 og 2018 og aðeins, eins og ég les þetta, 500–600 millj. kr. á tímabilinu.

Það væri líka fróðlegt að vita, þar sem miklar áætlanir eru uppi um að vera leiðandi í nýsköpun og rannsóknum, hvaða fjárhæðir séu í raun ætlaðar í þetta. Er þetta allt undir þessum 500–600 millj. kr.? Einnig langar mig að vita um jöfnun orkukostnaðar. Nú brennur mjög á landsmönnum gífurlega hár orkukostnaður og gengur hægt að jafna hann í landinu, bæði gagnvart heimilum og fyrirtækjum. Hvaða fjármunir eru áætlaðir til að jafnað að fullu orkukostnað í landinu? Liggur fyrir að búið verði að gera það eftir fimm ár? Hversu háar fjárhæðir eru ætlaðar í það verkefni? Eru einhverjar fjárhæðir ætlaðar t.d. í orkusparnað heimila og fyrirtækja? Eru einhverjar fjárhæðir eyrnamerktar (Forseti hringir.) neytendamálum til þess að styðja við starf í neytendavernd hér á landi?