146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:43]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Rétt aðeins um aðgerðaáætlun um orkuskipti. Hún er í samræmi við skuldbindingar Íslands undir COP21 og er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum. Markmiðin í prósentum fara saman við þá sóknaráætlun.

Varðandi virðisaukaskattshækkun og yfirfærslu úr undanþáguþrepi í almenna þrepið hjá ferðaþjónustunni þá voru unnar greiningar á því og spáð fyrir um áhrif. Ég get alveg tekið undir að þessi breyting mun hafa meiri áhrif á minni fyrirtæki úti á landi sem eru t.d. ekki með jafn góða nýtingu á gistinóttum og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst þá mikilvægt að minna aftur á að öll vinna stjórnvalda gengur í raun út á að dreifa ferðamönnum betur um landið með því að koma á seglum víða um land. Við erum með augun sérstaklega þar. Fyrst tekin er ákvörðun um að færa ferðaþjónustuna úr undanþáguþrepi í almennt finnst mér mikilvægt að við séum samhliða með sértækar aðgerðir gagnvart landsbyggðinni, hvort sem það er flugþróunarsjóður, Framkvæmdasjóður ferðamannastaða eða fleiri þættir.

Við erum í stóru myndinni líka að fjölga landvörðum. Þá þarf að moka oftar vegi til að stuðla að þessu o.fl.

Varðandi Samkeppniseftirlitið og aukið fjármagn þá er þetta aftur þessi stóri rammi. Svo munum við fara í þá vinnu að forgangsraða þeim fjármunum. Það hvort Samkeppniseftirlitið mun þurfa aukna fjármuni eða hvernig þeim verður forgangsraðað kemur í ljós síðar.