146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:58]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ef ég hef skilið rétt er 2% aðhaldskrafa á alla liði nema heilbrigðis- og öldrunarmál sem er hálft prósent og svo atvinnuleysistryggingar og almannatryggingar sem er núll. Ef ég skildi ráðherra rétt getur verið að þetta sé 2% yfir heildina og einhverjir ráðherrar eða málaflokkar sleppa. Ég á reyndar eftir að sjá að menn geti sett aðhaldskröfuna yfir á eitthvert annað ráðuneyti.

En ef það verður aðhaldskrafa innan ráðuneytis hæstv. ráðherra skulum við fara í ferðaþjónustuna sem vissulega fær verulega búbót á milli áranna 2017 og 2018. Aftur hækkar framlagið til 2019. Síðan á það að lækka um verulega fjárhæð eða 220 milljónir og haldast þar út áætlunina, þ.e. 220 milljónum minna. Ég veit að það eru hugmyndir um að þeir fjármunir fari annað. En á sama tíma leggst á þennan lið 47 milljóna aðhaldskrafa, 2%, á þessum árum. Ég á ekki von á að hæstv. ráðherra geti farið í þennan lið til að forgangsraða og finna peninga í uppbygginguna í orkumálunum, í orkuskipti, í þrífösun rafmagns. Það verður því vandasamt að leiða þessi mál í jörðu.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra í sambandi við ferðaþjónustuna sem er okkar stærsta atvinnugrein og skilar umtalsverðum tekjum hvort það sé ekki blóðugt að vera ráðherra ferðamálanna og fá lítinn skerf af þeim miklu framlögum sem renna í ríkissjóð. Það er líka hægt að spyrja hæstv. samgönguráðherra þessarar spurningar.

Spurningin er þá: Ef allar þessar tekjur koma til ríkisins frá ferðaþjónustunni, 20 milljörðum meira frá ferðaþjónustunni til ríkisins en í fyrra, og þeir milljarðar fara ekki í ferðamál og ekki í samgöngumál og ekki í löggæslu og ekki í heilbrigðismál (Forseti hringir.) úti um land, sem ráðherrann viðurkenndi hér áðan að gæti orðið erfiðara, hvernig virkar stýring á því að hækka virðisaukaskattinn til að dreifa ferðamönnum út um land? Eða eru það bara bílastæðagjöld sem eiga að stýra ferðamönnum?