146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:01]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Lækkunin seinni hluta tímabilsins skýrist af því að Flugþróunarsjóður dettur út eftir þessi ár. Eftir sem áður er þetta aukning miðað við árið 2017. Milljarðarnir eru áætlaðir 16 en ekki 20, svo því sé haldið til haga. Það er alveg rétt að virðisaukaskattskerfið er ekki tæki til aðgangsstýringar. Það er alveg klárt. Menn leggja upp með þessa kerfisbreytingu og lækka efra þrep á móti sem allir munu sömuleiðis njóta góðs af.

Við erum þrátt fyrir allt að setja aukna fjármuni í samgöngukerfið þó að það fjárfestingargat sé orðið rosalega stórt. Ég skal fyrst manna ræða það vel og lengi að fjárfestingargatið í samgöngumálum er verkefni sem er orðið mjög stórt og erfitt að sjá fram úr hvernig við leysum. Það fara þó auknir fjármunir í samgöngumálin, í heilbrigðismálin, og það liggur fyrir að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er til heilbrigðis- og velferðarmála. Það fara sömuleiðis auknir fjármunir í löggæsluna. Þeir fjármunir nýtast sérstaklega fyrir ferðaþjónustuna eða eru settir á þá staði þar sem er mikil fjölgun ferðamanna sem er aðallega á Suðurlandi og Norðurlandi.

Dreifing ferðamanna snýr að Flugþróunarsjóði og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Við erum að reyna að koma upp seglum úti um land. Ef þetta frumvarp um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða verður að lögum bind ég vonir við að þar með sé þá ráðherra ferðamála kominn með einhvers konar stýritæki til þess að reyna að koma þeirri stefnu í framkvæmd sem birtist t.d. í vegvísi. Það er áskorun að vera með ráðherra ferðamála á einum stað og svo samgöngumálin annars staðar og skatt og gjöld á enn öðrum stað, umhverfismálin, þjóðgarðana og allt þetta úti um allt. Það er meiri háttar áskorun.