146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:09]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það eru fleiri leiðir til þess að stuðla að jákvæðu viðhorfi Íslendinga gagnvart ferðamönnum. Ég held að við séum komin á þann stað að fólk þarf að fá tilfinninguna fyrir að það sé skipulag á greininni og það er þá stjórnvalda að stuðla að því. Mér hefur stundum fundist við vera að vinna verkefni sem eru einhvern veginn seinna í keðjunni, verkefni sem koma upp hverju sinni og við bregðumst við, en við eigum í mínum huga eftir að ná almennilega þeim strúktúr sem svona stór atvinnugrein þarf að hafa. Við þurfum að gera það. Það þarf þá líka að taka einhverjar ákvarðanir. Ég held að þetta sé allt liður í því að hinn almenni Íslendingur sé áfram jákvæður gagnvart ferðamönnum vegna þess að jákvæðnin fer minnkandi og það er áhyggjuefni.

Ég veit að hinn almenni Íslendingur áttar sig vel á þeim efnahagslega ávinningi sem þessi atvinnugrein leiðir af sér. Menn finna fyrir þeim breytingum á eigin skinni og þeim ávinningi sem af þessu hlýst, og reyndar landið allt og kannski sérstaklega landsbyggðin af því að upp koma ný tækifæri, nýir innviðir og ný afþreying með þeim.

Ég get alveg fullvissað hv. þingmann um að markmiðið þar sem segir að endurmeta eigi þátttöku í alþjóðlegu samstarfi til að stuðla að markvissri áætlanagerð, þekkingaröflun og skilvirkni í stjórnsýslu, felst engin einangrunarhyggja. Í rauninni þýðir það bara að þetta er eitt af því sem við þurfum að endurskoða af því að það er margt sem liggur fyrir. Við erum nú að takast á við það sem mörg önnur ríki hafa tekist á við áður og við verðum í meira mæli að leita til þeirra og læra af þeim. Ég get róað hv. þingmann varðandi það.