146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:11]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra talaði um að hún ætlaði að leiða málefni rannsóknar og nýsköpunar í hærri hæðir. Mig langar að spyrja hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að háskólanum er ekki ætlað neitt hlutverk á þeirri vegferð. Hér á að auka veg þekkingargreina um 3% á ári. Mig langar að spyrja hvort ekki hefði verið nær, fyrst menn vilja endilega fara í skattalækkanir á þessum þenslutímum, að fara í myndarlega lækkun á tryggingagjaldi strax í staðinn fyrir að lækka virðisaukaþrepið, það hefði kannski nýst þeim greinum sem nýta sér hugvit einna best. En fyrir kosningarnar töluðu flokkarnir almennt um að sveitarfélög fengju meira í sinn hlut. Nú er búið að leggja á komugjöld og eitthvað fleira og á að reiða sig svolítið á virðisaukahækkunina. Með hvaða hætti mun ávinningur af því renna til sveitarfélaga? Hér talar hæstv. ráðherra um flugþróunarsjóð og annað til að stýra ferðamönnum út um allt land, en eru ekki sveitarfélögin best í stakk búin til að stýra þessu með því að laða fólk að sér í staðinn fyrir að ýta fólki á tiltekna staði? Hefði ekki verið sniðugt að nýta peninga með markvissum hætti í það?

Það kemur fram í Vísi í dag að Ríkisendurskoðun segi að ríkisstofnanir sem sjái um ferðamál séu í ólestri, hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir. Ráðherra boðaði endurskoðun á skipun ferðamála til að auka skilvirkni, yfirsýn og stjórnsýslu greinarinnar. Eru þetta viðbrögð við þessari gagnrýni Ríkisendurskoðunar? Hver verður aðkoma stjórnmálamanna, samtaka aðila í ferðaþjónustu, stofnana á málefnasviðum þessarar vinnu að þessari endurskoðun?