146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:13]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég hef áður sagt að mér finnst gistináttaskattur vera þess eðlis að hann eigi annaðhvort að fella brott eða hið minnsta verða eitt af þeim tólum sem sveitarfélögin hafa fyrir sig til að fá heimild til að leggja þau á. Bílastæðagjöldin munu líka gagnast sveitarfélögum mjög. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að þessi uppbygging og þetta framboð fyrir ferðamenn eigi að vera á forsendum sveitarfélaga. Það er enginn betur til þess fallinn en heimamenn sjálfir þegar að því kemur. Markaðsstofurnar spila þar líka stórt hlutverk, sveitarfélögin sjálf, og hið svokallaða DMP-verkefni, þ.e. stefnumótandi stjórnunaráætlanir fyrir landshlutana, við erum að vinna að því núna, það eru peningar í því núna. Við munum leggja áherslu á það. Það verður forgangur áfram næstu misseri. Það skiptir miklu máli. Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta þarf að vera á forsendum sveitarfélaganna.

Varðandi stjórnsýsluna almennt og samráð og annað þá erum við með Stjórnstöð ferðamála sem í sitja ráðherrar sem málaflokkurinn snertir, svo erum við með greinina sjálfa þar og við erum með sveitarfélögin líka. Það er góður vettvangur til að tala saman um þau mál og þá stefnu sem stjórnvöld vinna að eða sem greininni finnst vanta. Ég bind vonir við stjórnstöðina hvað það varðar.

Aðeins út af þessari úttekt þá er það ekki rétt sem fram kom. Ég get ekki séð að Ríkisendurskoðun hafi talað um að stjórnsýslan væri í ólestri hvað þetta varðar og það sama á við um að stjórnvöld hafi ekki brugðist við þessum ábendingum, vegna þess að þegar fyrri ábendingarnar komu þá var Stjórnstöð ferðamála ekki einu sinni til.