146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:16]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. ráðherra svaraði mér þessum tveimur spurningum varðandi virðisaukann, annars vegar hvort það hefði ekki verið betra, ef menn ætluðu að leiða uppbyggingu í nýsköpun og þekkingu, að lækka frekar tryggingagjald. Og hitt: Ef menn ætla ekki að gera það með hvaða hætti mun virðisaukinn í þessu renna til sveitarfélaga?

Hér kom líka fram að Ísland á að vera leiðandi í vistvænni orkunýtingu og við ætlum hreinlega að verða leiðandi á öllum sviðum í þessari fjármálaáætlun. Þetta er farið að minna dálítið á ævintýrið um naglasúpuna, að menn ætli að búa til hinn fullkomna heim úr engu. Ég hef reyndar ekki trú á þessu.

Aðeins varðandi orkuskiptin. Mig langar að spyrja af hverju menn miða ívilnun við 1.250 til 2.500 bíla? Við vitum öll hverjir koma til með að eignast fyrstu bílana, það eru auðvitað þeir sem hafa peninga. Svo væri ágætt ef hæstv. ráðherra svaraði hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur aðeins frekar varðandi jöfnun á orkukostnaði.