146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:17]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hv. þingmaður spyr hér um breytingar á vaski og hvort betra hefði verið að lækka tryggingagjald í staðinn fyrir að lækka efra þrepið. Það hefur komið fram að áætlað er að lækka tryggingagjaldið á kjörtímabilinu. (Gripið fram í.) Ég veit vel að menn munu segja að það sé of loðið og ekki nægilega skýrt. Ég get alveg tekið undir það og í mínum huga er mjög mikilvægt að það verði gert.

Varðandi virðisaukaskattinn á sveitarfélögin þá er það alveg rétt að virðisaukaskattur rennur í ríkissjóð, hann rennur ekki til sveitarfélaga. Varðandi spurningu (Gripið fram í.) — við erum ekki lengur með markaðar tekjur og það er ekki þannig að þær viðbætur sem munu skila sér inn í ríkissjóð séu eyrnamerktar á þann veg að x-hlutfall af þeim renni til sveitarfélaga. Það er ekki þannig. En við erum að reyna. Ég hef nýtt þetta tækifæri til að hamra mjög á því að samhliða þessu munum við fara í þá innviðauppbyggingu sem þarf vegna ferðaþjónustunnar og fyrir ferðaþjónustuna, hvort sem það er í uppbyggingu á svæðum á vegum sveitarfélaga eða ríkis eða einkaaðila, fjölgun landvarða og eflingu. Við erum að efla löggæsluna, við erum að setja aukið fjármagn í heilbrigðisþjónustu og það skiptir allt máli. Það er alveg rétt, vaskurinn fer ekki til sveitarfélaga. Það fylgir ekki að x-hlutfall sé eyrnamerkt í það.