146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:36]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Til að koma inn á fyrirspurnina um lögregluna og hvort þeir viti ekki hver viðbragðstíminn er skilst mér að það sé þannig að lögreglan þekki vel tímann en hér verði farið í að vinna þetta nákvæmlega og útbúa nákvæmt mælaborð til að halda utan um það.

Um það hvernig markmiðin eru unnin get ég því miður ekki úttalað mig. En nú hefur verið unnið að réttaröryggisáætlun í langan tíma og þar undir er löggæsluáætlun, ákæruvaldsáætlun, fullnustuáætlun og dómstólaáætlun. Þar birtist stefna fyrir þessar stofnanir allar. Löggæsluáætlun er komin lengst á veg. Mér skilst að hún komi hingað inn í þingið á næstu misserum. Hún talar mjög vel saman við þessa stefnu. Þar geta stofnanir sömuleiðis talað saman, þannig að þegar einhver stór aðgerð er viðhöfð á einu sviðinu hefur það að sjálfsögðu áhrif á hin. Af því markast heildarsýn. Það talar væntanlega saman um fjármálaáætlun og þau markmið og þann texta sem þar er að finna.