146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:46]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og langar í framhaldinu að gera að umtalsefni fjármögnun lögreglu og hvernig horft er til hennar út frá tveimur þáttum.

Út frá landamæraeftirlitinu stóreykst koma ferðamanna og umferð um Keflavíkurflugvöll. En það hafa aldrei fylgt aukaframlög í takt við það. Flugvöllurinn og önnur starfsemi sem þar er fá aukin framlög samkvæmt fjölda ferðamanna en þar sem löggæslan á að vera fjármögnuð af fjárlögum hefur ekki tekist að tengja þetta beint saman. Það eru hagsmunir flugvallarins og ferðamannanna að löggæslan geti brugðist vel við svo ekki hægi á komum og líka til að tryggja öryggi þeirra á flugvellinum. Það er þetta annars vegar, hvernig fylgjast þarf að fjölgun ferðamanna og aukið fjármagn, án þess að taka þurfi sérstaka ákvörðun um það.

Hins vegar er það varðandi fjölgun lögreglumanna á landsbyggðinni. Við tölum oft um umferðaröryggismál. Það hefur komið í ljós við vinnu umferðaröryggisáætlunar að hægt er að koma í veg fyrir fjögur af hverjum fimm umferðarslysum sem verða af völdum hraðaaksturs og ölvunaraksturs með auknu eftirliti lögreglu. Það tengist þeim áherslum sem við ræddum í fyrra svari. Þess vegna vil ég líka vita hvort ekki sé horft til beggja þátta, bæði varðandi Keflavíkurflugvöll og svo aukið umferðaröryggi með fjölgun lögreglu og þar með minni kostnaði fyrir ríkissjóð.