146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:48]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég get tekið undir með hv. þingmanni. Það er mikilvægt að við tökum í meira mæli mið af þeim nýja veruleika sem við stöndum frammi fyrir vegna fjölgunar ferðamanna. Það er mikilvægt að kerfið sjálft, hvort sem litið er á heilsugæslur um landið eða lögregluembætti, snjómokstur eða hvaðeina, hugi að því að það er breyttur veruleiki vegna fjölgunar ferðamanna, og það er að gerast en það skiptir máli að það gerist í auknum mæli. Þegar menn fara í áætlanir og forgangsraða peningum og sjá fyrir sér verkefni sem munu koma upp eru þau verkefni fjölbreyttari, önnur og öðruvísi en áður vegna þess að ferðamenn fara, sem betur fer, út um allt land.

Varðandi spurningarnar um Keflavíkurflugvöll og umferðaröryggið: Jú, það verður áfram unnið í samræmi við það.