146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:57]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það sem hv. þingmaður kom inn á varðandi fangelsismálin og betrunina. Dómsmálaráðherra leggur áherslu á þá þætti. Stefnt er að því að auka sálfræði- og meðferðarúrræði í fangelsum landsins einmitt til þess að stuðla að betri og farsælli aðlögun dómþola að samfélaginu eftir afplánun. Það er mikilvægt á svo margan hátt til þess að veita þessum einstaklingum tækifæri til þess að fóta sig áður en þeir koma aftur út í samfélagið.

Varðandi dómstólasýsluna er það fjármagn sem þar er fengið samkvæmt kostnaðarmati með lögum um nýtt dómstig, en ekki er hægt að auka fjárframlag við það.

Aðeins varðandi fjárhagsleg áhrif nýrrar dómstólaskipunar. Um er að ræða 35% aukningu fjárframlaga til málefnasviðsins árið 2018 og er miðað við upphæð fjárlaga og fjáraukalaga árið 2016. Aukningin á milli áranna 2017 og 2018 nemur tæplega 23%.