146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:01]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Aðeins varðandi Dómstólasýslu þá er fjármagnið sem þar er sett það sama og Dómstólaráð er með núna og þessum 22 millj. kr. bætt við. Það er alveg rétt að Dómstólasýslan telur sig þurfa meira og ekki var svigrúm fyrir það.

Hvort ég er sannfærð um að þetta sé nóg — ég leyfi mér að fá að vísa því til dómsmálaráðherra og í umræðu sem nefndarmenn geta átt við ráðherrann í nefnd.

En til að ítreka það þá er þessi viðbót sem fer í þetta málefnasvið mikil. Þessi breyting hefur gríðarleg áhrif á kerfið okkar, á réttaröryggið, en það má alltaf gera betur. Þetta eru auðvitað gríðarleg áhrif og gríðarleg breyting og það er mikilvægt að fagna því sem vel er gert.