146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:04]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Rétt aðeins varðandi þyrlurnar: Það er vissulega rétt, þetta er gífurlega mikil fjárfesting. Ég kom inn á það áðan að hagkvæmara er að kaupa þessar þrjár þyrlur frekar en að leigja þær áfram. Það er því góð ákvörðun að loksins sé farið í þetta og mikilvæg. Það er viðbótarfjármagn í reksturinn, en það er alveg hægt að taka undir það þegar hv. þingmaður spyr hvort það þurfi meira. Það liggur fyrir að vel væri hægt að nýta fjármuni í bæði varðskipin, hvort sem það er að gera skip haffært eða annað, sömuleiðis með fjölgun áhafna, hvort sem er á skipum eða í þyrlum. Þörfin er svo mikil að þrátt fyrir að bætt sé í þá telja menn það ekki nóg.

Varðandi sjúkraflugið og þyrlurnar þá er það í skoðun hjá dómsmálaráðherra og að mér skilst hjá heilbrigðisráðherra líka. Eins og hv. þingmaður kom inn á þá snertir þetta í raun bæði ráðuneytin, eða mögulega skarast þessi verkefni. Ég vænti þess að þingmenn geti átt samtal um þetta efni og spurt ráðherra nánar út í þessa vinnu í nefnd.