146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:10]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svarið þótt ég hafi ekki endilega nauðsynlega þurft á því að halda að heyra nánast orðrétt það sem stendur í þessari áætlun þar sem ég hef nú þegar lesið hana. Það sem ég var að spyrja um var hvers vegna engin viðmið er hér að finna um hvernig við ætlum að auka sálfræðiþjónustuna. Hversu marga lækna ætlum við að hafa á vakt við fangelsin? Ætlum við að hætta að gefa fíklum í fangelsum rónaskammta eins og fangaverðir þar kjósa að kalla það? Ætlum við að bjóða upp á betri þjónustu? Hvernig ætlum við að mæla hvort við bjóðum upp á betri sálfræðiþjónustu ef engin eru viðmiðin til þess að bera saman við? Það þýðir ekkert að tala fjálglega um að við höfum núna 30 aukapláss til að henda fólki inn í án þess að hafa neitt markmið um að fjölga þeim sálfræðingum sem sinna þessu starfi eða fjölga læknum sem sjá um að fylgjast með heilsu fanga sem við berum mikla ábyrgð á, herra forseti.

Að öðru. Ég ætla að nota þessa síðustu mínútu mína á þessum degi í að ræða aðeins um flóttamenn. Á bls. 195 er að finna mælikvarða þar sem talað er um að hlutfall tilhæfulausra umsókna frá öruggum löndum eigi að fækka verulega á tímabilinu, frá 61% niður í 5% á árinu 2022. Ég heyrði hæstv. staðgengil dómsmálaráðherra vísa í að draga ætti úr fjárhagslegum hvötum fyrir einstaklinga frá öruggum ríkjum til að leita hingað með tilhæfulausar umsóknir. Því vil ég spyrja hæstv. staðgengil dómsmálaráðherra hvernig eigi að gera það. Hvernig hyggst hún ná þessu markmiði sínu án þess að brjóta gróflega á réttindum fólks? Ég ítreka að ég vil fá svar við því hvernig eigi að draga úr fjárhagslegum hvötum fólks til þess að koma hingað til lands með svokallaðar tilhæfulausar umsóknir.