146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:16]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Við hljótum að geta rætt og þurfum að ræða hluti sem ekki hafa ratað inn í áætlunina, sérstaklega þegar þeir snert okkar veikustu bræður og systur. Mér finnst það ekki ósanngjarnt að ráðherra, jafnvel þótt hún sé ekki ráðherra málaflokksins, svari því bara almennt hvort henni finnist þessi viðmið eðlileg og hvort henni finnist rétt að hækka þau.

Annar hópur sem er mjög brothættur og virðist hafa gleymst í öllum markmiðum eru flóttamenn. Í stjórnarsáttmálanum segir að það eigi að taka á móti fleiri flóttamönnum. Hvernig á að mæta því í fjármálaáætluninni? Það væri líka gaman að vita hvernig gert er ráð fyrir því í fjármálaáætluninni að bæta aðbúnað þessa hóps. Við Íslendingar þekkjum það sjálf, forfeður okkar fyrir ekki svo löngu síðan þurftu að flýja land, auðvitað af talsvert öðrum orsökum og annarra erfiðleika en steðja núna að blessuðu flóttafólkinu sem kemur hingað. En er ekki ráðherra sammála því að það þurfi að koma upp varanlegri aðstöðu, húsnæði fyrir þetta fólk? Er það ekki það lágmark sem við getum sýnt, rík þjóð sem býr við allsnægtir og sem þurfti sjálf fyrir ekki svo löngu síðan á aðstoð annarra ríkja að halda?