146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:17]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það að mikilvægt getur verið að ræða hvað er ekki að finna í fjármálaáætlun, en ég átti eingöngu við að staðgengill ráðherra getur síður talað um af hverju einhverjir hlutir eru ekki í fjármálaáætlun af því að sú vinna fór fram hjá dómsmálaráðherra ekki mér.

Varðandi gjafsóknina er það víst í skoðun hjá ráðherra að hækka þessi viðmið, svo það komi fram, það er þá eitthvert svar.

Varðandi kvótaflóttamenn og þann málaflokk þá á sá málaflokkur heima undir félagsmálum og húsnæðismálum hjá félags- og jafnréttismálaráðherra en ekki í innanríkisráðuneytinu. Hins vegar liggur fyrir þessi skýrsla þar sem kemur skýrt fram að það er aðstöðumunur á þessum hópum. Það er nefnd að hefja störf til þess að fara yfir þennan aðstöðumun og vinna tillögur til úrbóta. Varðandi húsnæðismálin þá eru þau í vinnslu samkvæmt ráðuneytinu.