146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:20]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni og beina því sömuleiðis til forseta að taka til skoðunar að þeir tveir fagráðherrar sem ekki komust í dag muni taka til máls aftur að liðnu páskafríi. Mér þykir það sérlega mikilvægt af því að þrátt fyrir að skoðanaskipti við ráðherra geti verið einkar gagnleg í nefndum hafa eins og við vitum ekki allir aðgang að þeim nefndum og það er töluvert mikilvægt að sjónarmið ráðherra komi hér fram. Það olli mér töluverðum vonbrigðum þrátt fyrir sum góð og gegn svör frá hæstv. staðgengli að síðasta spurningin mín mætti nákvæmlega engum svörum. Voru spurningar mínar samt ekki það erfiðar, í raun sneru þær að lykilinntaki málaflokks dómsmálaráðherra og finnst mér því eðlilegt að ég fái svör um það hvernig við eigum eiginlega að meta árangur ríkisstjórnarinnar þegar áreiðanlegar tölur liggja ekki fyrir, ekkert kostnaðarmat og engin viðmið. Mér þykir eðlilegt að staðgengill ráðherra eigi að geta svarað fyrir það en fyrst hann getur það ekki óska ég þess vinsamlega að forseti þingsins (Forseti hringir.) fái ráðherrann sjálfan til að svara fyrir þetta virðulega plagg sitt.