146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:22]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég má til með að taka undir með þeim tveimur hv. þingmönnum sem hér hafa talað um að þrátt fyrir ýmis góð og gagnleg svör frá hæstv. staðgenglum ráðherra í dag hafi þau engan veginn verið fullnægjandi þegar kemur að mjög mikilvægum málaflokkum. Við erum að tala um að hvorki hæstv. utanríkisráðherra sá sér fært að mæta í dag né hæstv. dómsmálaráðherra. Það kunna að vera góðar og gildar ástæður fyrir því en ég ætla að taka upp á fundi þingflokksformanna að hæstv. dómsmálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra verði til svara mánudaginn eftir páska þegar páskahléi lýkur. Mér þykir það eðlilegt. Þetta eru þess lags málaflokkar að það er svolítið erfitt að átta sig á því hvort viðkomandi hæstv. ráðherra hafi í raun pólitískt umboð til að svara þessu með þeim hætti sem þarf.