146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:23]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir þessa ósk hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar. Hæstv. menntamálaráðherra Kristján Þór Júlíusson var hér áðan og lýsti því ágætlega fyrir okkur í hve mikilli tímapressu þetta plagg hefði verið unnið og að það væri bagalegt. Þess vegna er náttúrlega enn verra ef umræðan þynnist út.

Þetta er ekki sagt af óvirðingu við hæstv. ráðherra sem hlaupa hver í annars skarð. Ég skil vel að þeir geti ekki eðli hlutarins samkvæmt svarað eins og um fagráðherra væri að ræða. Þeir eru þó stjórnmálamenn, hv. þingmenn og ráðherrar og eiga í samskiptum. Því væri gott að þeir svöruðu a.m.k. hvað þeim finnst sjálfum, af því að þeir eru þá starfandi ráðherrar málaflokksins í augnablikinu.