146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:32]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar athugasemdir. Þetta er málaflokkur sem endalaust væri hægt að gera betur í og sennilega er engin takmörkun á að ná endimörkum þar um hvernig við getum stutt betur við samfélagið í þessum efnum. Þegar kemur að fæðingarorlofinu þá urðum við einfaldlega að forgangsraða. Það er alveg ljóst að sá niðurskurður sem var á hámarksfjárhæðum kom mjög þungt niður á orlofstökunni og við höfum séð að feður eru í mun minna mæli nú að taka orlof en áður. Þar hefur ítrekað verið bent á mikilvægi þess að hækka hámarksgreiðslur til að draga úr tekjuskerðingum og áhrifum þeirra fyrir fjölskyldur. Það á auðvitað við um báða foreldra, en þetta dregur verulega úr hvata til orlofstöku. Þess vegna teljum við brýnt að ná fyrst upp fullri virkni núverandi 3+3+3 kerfi áður en farið er að huga að lengingu kerfisins eða öðrum breytingum á því.

Þegar kemur að húsnæðismálunum þá er það alveg rétt að hér er brýnt og mikið neyðarástand á húsnæðismarkaði sem snýr fyrst og fremst að skorti á húsnæði. Þó er rétt að taka fram að í áætlunum okkar hvað varðar einmitt framlög til almennu íbúðanna er einmitt verið að framlengja það fyrirkomulag. Það verður að hafa í huga að núverandi fjárhæðir, 3 milljarðar á ári sem nota bene hefur tekist að tryggja í þessari ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2018 og 2019 auk þeirrar viðbótar sem sett var inn á þessu ári, voru hugsaðar sem tímabundið verkefni, átaksverkefni á þessum markaði. Nú er verið að framlengja það sem varanlegt úrræði út gildistíma áætlunarinnar með 1.500 milljónir á ári á árunum 2020, 2021 og 2022. Þannig að þar get ég ekki tekið undir að verið sé að draga úr þeim stuðningi. Það er vissulega hins vegar svo að gert er ráð fyrir að vaxtabætur lækki samhliða auknum kaupmætti og sterkari eignastöðu heimilanna.