146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Deila má um hvort fjárhæðarmörk í skerðingarkerfinu eigi þá ekki að einhverju leyti að taka mið af því. Ef menn vilja áfram beina stuðningi til tekjulágs fólks vegna húsnæðisöflunar þá geta menn gert það ef viljinn er til staðar, það er auðvitað þægilegt og ódýrt að nota sér það að láta bara skerðingarreglurnar bíta.

Um fæðingarorlofið, það er ansi grimm forgangsröðun ef í þann málaflokk er svona óhemjulega erfitt, það hafi tekið svona á, það hafi reynt svona rosalega á ríkisstjórnina og hæstv. ráðherra, að ná hálfum milljarði inn í hann í viðbót á áætlunartímabilinu, því það er nú allt og sumt. Þessi hækkun þaksins er talin kosta hálfan milljarð og það kemur í skömmtum. Það þyrfti nú ekki stóra viðbótarhlutdeild Fæðingarorlofssjóðs í tekjustofninum, tryggingagjaldi, til að gera þetta. En það þarf vissulega, sennilega 0,3–0,4 prósentustig til þess að fjármagna lengingu í eitt ár, en það er auðvitað það sem þarf að gera. Talandi um þörfina fyrir það þá minni ég hæstv. ráðherra á umræðuna hér um að skapa fjölskylduvænt og barnvænt samfélag. Það er ekki endilega verið að senda unga fólkinu okkar góð skilaboð með því að það muni ekkert gerast að ráði sem máli skiptir í fæðingarorlofsmálum næstu fimm árin.

Ég vil bara nefna um leið og ég fagna að sjálfsögðu frumvarpinu um notendastýrða persónulega aðstoð, og ég geng út frá því að samræmi sé milli áætlunarinnar og kostnaðaráætlunar þess frumvarps, að þá minni ég á að þar er ágreiningur við sveitarfélögin. Að öðru leyti er lítið sett inn í þann málaflokk. Það er mikil óvissa skilin eftir hvað varðar kjör öryrkja á komandi árum. Í reynd er ekki að sjá að til standi að bæta kjör þeirra neitt fyrr en þá eitthvað á árinu 2019 og það er hengt á kerfisbreytingar og upptöku starfsmats. Ég er því (Forseti hringir.) ansi hræddur um að þeim sem finnst biðin löng þar eftir því að fá (Forseti hringir.) hlutdeild í batnandi þjóðarhag þyki þetta ekki sérstaklega metnaðarfullt, að eiga í (Forseti hringir.) aðalatriðum að bíða í óvissu til ársins 2019.