146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:43]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Ég þakka svörin. Mér fannst nú ekki koma fram hvort þessi hugmyndafræði rími við áform hæstv. ráðherra í embætti sínu.

Mig langar til þess að halda áfram og fjalla aðeins um kafla um vinnumarkað þar sem fram kemur að ein helsta áskorun málaflokksins séu atvinnutengdir sjúkdómar. Þar er fjallað um óhóflega streitu á vinnustöðum, að hún sé til þess fallin að auka líkur á heilsutjóni af ýmsu tagi. Einnig kemur fram að streita sé áhættuþáttur fyrir sjúkdóma í hreyfi- og stoðkerfi sem og geðsjúkdóma og að fyrrnefndir sjúkdómar séu helstu orsök örorku á Íslandi. Það eru sláandi upplýsingar og er þarna væntanlega komin útskýring fyrir þá aukningu öryrkja sem orðið hefur undanfarið á Íslandi.

Er það ekki skýrt merki um að það sé eitthvað stórkostlega mikið að í samfélaginu? Streita getur átt sér margar orsakir. Vitað er að mikill fjöldi fólks hatar vinnuna sína og myndi vilja gera eitthvað allt annað við tíma sinn, það er kannski orðið eldra en 25 ára og hefur ekki tök á því efnahags- eða félagsstöðu sinnar vegna að fara í nám til að bæta stöðu sína. Margir festast í aðstæðum sem þeir ráða ekki við vegna erfiðra aðstæðna sem við þingmenn sköpum fólki í samfélaginu. Streitan í daglegu lífi fólks orðin óhófleg vegna brenglaðrar forgangsröðunar sem byggð er á úreltri hugmyndafræði. Þess vegna dettur fólk út af vinnumarkaði og neyðist til þess að sækja um örorkubætur þar sem fólki er haldið í fátækt, sem leiðir af sér aukna streitu og eykur á veikindi og gerir ástandið varanlegt.

Hvers vegna í ósköpunum upprætum við ekki þennan vítahring? Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera til þess að uppræta hann? Hvers vegna reynum við ekki að hlúa betur að því fólki sem þarf mest á stuðningi samfélagsins að halda til að geta lifað með reisn eða jafnvel til að ná heilsu aftur? Er ekki sparnaður í því?