146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:54]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Þetta er alveg bráðáhugaverð umræða. Þarna hittir einmitt hv. þm. Óli Björn Kárason naglann á höfuðið ef svo mætti orða það … (Gripið fram í: Loksins.) Loksins, [Hlátur í þingsal.] þar kom að því. Það er einmitt svo. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé mjög gott samstarf milli heilbrigðishluta ráðuneytisins og félagsmálahluta ráðuneytisins og raunar þegar kemur að fleiri þáttum eins og fjármálaráðuneytinu og þeim bótakerfum sem þar eru. Það er svo auðvitað þannig að við getum fjárfest í heilbrigðiskerfinu sem sparar okkur veruleg útgjöld á félagshliðinni og öfugt. Það eru ýmis úrræði sem við eigum á félagshliðinni sem geta sparað heilbrigðiskerfinu verulega fjármuni til lengri tíma litið. Það er skylda okkar að tryggja það að við förum eins vel með fjármuni og kostur er, styðjum eins vel við þennan hóp og kostur er og pössum einmitt að hægri höndin viti hvað sú vinstri er að gera og öfugt og horft sé til samverkanar þessara þátta.

Það er t.d. alveg augljóst dæmi að fjárfesting í geðheilbrigðisþjónustu er sennilega eitt skilvirkasta tæki okkar til þess að berjast gegn nýgengi örorku. Það er að sama skapi alveg klárt að fjárfesting í endurhæfingu, sjúkraþjálfun og öðru slíku til þess að takast á við stoðkerfisvandamál hjá fólki er ein skilvirkasta leiðin til þess að draga úr örorku og hjálpa fólki aftur til virkni. Þessa vegna skiptir samþættingin mjög miklu máli og við heilbrigðisráðherra höfum einmitt rætt þessi mál. Fimm ára áætlun bar að með mjög skömmum fyrirvara, en það stendur til að stórefla samstarfið til þess að við getum hámarkað nýtingu fjármuna og tryggt að við séum raunverulega að fjárfesta á réttum stöðum til þess að styðja við þennan hóp.