146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum kærlega fyrir hans svör. Ég held að það sé mjög mikilvægt að reyna að finna peningana varðandi kvótaflóttamennina. Það er áætlað að það kosti 5 milljónir að taka á móti einum kvótaflóttamanni þannig að ef við ætlum að taka á móti 50 eins og við höfum verið að gera á undanförnum tveimur árum, hvort árið, þá gerir það alla vega 250 milljónir, þannig að upphæðin ætti að finnast einhvers staðar í áætluninni. Ef við erum að tala um 100 flóttamenn þá ætti það að vera 500 milljónir og við getum reiknað okkur upp í hærri tölur ef við ætlum að fjölga þeim. Hér er sem sagt um umtalsverða peninga að ræða sem ég hef ekki fundið neins staðar í textanum þótt ég hafi leitað eftir.

Síðan væri gott ef ráðherrann gæti upplýst um hvenær hann hefur í hyggju að leggja fram frumvarp um hækkun á lífeyristökualdri. Það er tilgreint að ætlunin er að hefja hækkunina upp í 70 ár og það eigi að einhverju leyti að mæta nýjum framlögum inn í kerfið.

Til viðbótar vil ég spyrja hæstv. ráðherra, þar sem við erum að ræða töluvert um frítekjumörkin og það er mjög ánægjulegt að sjá að ráðherra hefur hækkað frítekjumark húsnæðisbóta í samræmi við hækkunina sem varð á bótum almannatrygginga um áramótin: Er gert ráð fyrir fjármunum til þess að tryggja að húsnæðisbætur geti hækkað í samræmi við fyrirhugaðar hækkanir í almannatryggingakerfinu?

Ráðherra nefndi það í ræðu sinni að það er verið að skoða breytingar á barnalífeyri og barnabótum. Það sýndi sig með húsnæðisbæturnar að það kostaði verulega mikið að jafna stuðninginn við fólk sem var á lífeyri og þá sem voru á almennum vinnumarkaði þó að það væri með sömu tekjurnar. Það hefur verið bent á að staðan væri nákvæmlega sú sama ef ætlunin væri að jafna stuðninginn við fólk á vinnumarkaði á við það sem fólk fær greitt í gegnum almannatryggingar. Hefur verið hugað að þeim kostnaði?

Svo að lokum: Ofbeldismálin.