146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:03]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég verð að játa það að ég er greinilega ekki nógu vel að mér enn þá í bókhaldslyklum ríkissjóðs fyrir utan að hv. þingmaður spurði svo margs í seinni ræðu að ég þurfti að hafa mig allan við að fylgjast með því. Ég vona að ég nái að svara því öllu.

Varðandi kvótaflóttamenn er gert ráð fyrir því á tímabilinu 2018–2022 fjölgi kvótaflóttamönnum úr 50 í 100 talsins í lok tímabilsins. Þar er gert ráð fyrir fjármagni í þetta. Því til viðbótar er gert ráð fyrir fjármagni til að samræma betur móttöku kvótaflóttamanna og þeirra flóttamanna sem hér fá vernd en koma á eigin forsendum. Þannig að það er gert ráð fyrir hvoru tveggja.

Varðandi frítekjumörkin þá reiknum við að sjálfsögðu með því að þau muni fylgja hækkandi fjárhæðum bótanna og munum gæta að því. Nú er maður farinn að kalka …(EyH: Barnalífeyririnn.) Barnalífeyririnn, já. Það verkefni er raunar bara rétt að hefjast. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að í þessu getur falist töluverður kostnaður sem ekki er enn gert ráð fyrir í þessari áætlun enda er ekki ljóst hver niðurstaða slíkrar endurskoðunar yrði. Þetta er hins vegar afar brýnt verkefni því það er auðvitað algjörlega nauðsynlegt fyrir okkur, þar kemur aftur inn að örorkumálunum, að við séum með sambærilegan stuðning við tekjulága einstaklinga óháð því hvaðan tekjurnar koma. Það gengur ekki að við séum í raun og veru að senda fólki þau skilaboð í erfiðri stöðu og segja við það nei, því miður, við getum ekki hjálpað þér ekki nema þú sért á örorkubótum þá getum við veitt þér betri stuðning. Það eru afskaplega röng skilaboð í mínum huga og mjög brýnt að við hugum að því hvernig við getum endurskoðað þetta fyrirkomulag og komið því fyrir að stuðningur sé óháður tekjum.

Hvað varðar ofbeldismálin þá er í bígerð aðgerðaáætlun sem verður væntanlega lögð fyrir þingið í haust. Hún er fjármögnuð, að mér er sagt.