146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:07]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Eins og ég tæpti á í fyrra svari stendur til að fjölga kvótaflóttamönnum úr 50 í 100 á gildistíma áætlunarinnar, en jafnframt að veita aukinn stuðning til þeirra sem koma á eigin vegum og fá vernd. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Að sjálfsögðu ber okkur rík skylda til að veita liðsinni eins og aðrar þjóðir. Evrópa glímir við flóttamannavanda af þvílíkri stærð að við höfum varla séð slíkt áður, í það minnsta ekki síðan í seinna stríði. Þarna verðum við að sjálfsögðu að lyfta undir eins og aðrar þjóðir.

Það skiptir þó öllu máli að vel takist til. Þar er lykillinn að veita fjármagn til aðstoðar í húsnæðisleit, atvinnuleit, tungumálanámi, við íslenskukennslu o.s.frv. Þar held ég að við höfum staðið okkur ágætlega þegar kemur að kvótaflóttamönnum en afleitlega þegar kemur að þeim hópi sem kemur hingað á eigin vegum. Þar verðum við að horfa til þess hvernig við getum samræmt þessa þjónustu betur. Það er ankannalegt að við tökum á móti öðrum hópnum á rauðum dregli en við hinn hópinn, þegar hann fær landvistarleyfi, segjum við bara: Gangi þér vel. Þarna þurfum við virkilega að bæta okkur. Og þarna er mjög mikill fjöldi. Ég held að gert sé ráð fyrir að á þessu ári gætu allt að 180 flóttamenn fengið hér landvistarleyfi utan kvótaflóttamanna á grundvelli alþjóðlegrar verndar. Þessi hópur hefur vaxið stórlega á undanförnum árum og virðist ekki fyrirsjáanlegt annað en að sú þróun haldi áfram. Þess vegna leggjum við mjög mikla áherslu á þetta.

Seinni spurningin var ... (Gripið fram í.) — Já, innleiðingin á mismunafrumvörpunum. Nei, ekki er gert ráð fyrir verulegum kostnaði í tengslum við þau en þetta er afar brýnt mál þegar kemur að mannréttindamálum almennt og er ákveðið lýti á okkur þegar kemur að Íslandi í alþjóðlegum samanburði hvað þessi mál varðar.