146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:11]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Jú, þetta er mjög áhugavert innlegg hjá hv. þingmanni. Það er svo stutt í fordómana í þessari umræðu, að það sé verið að staðhæfa að innflytjendur séu byrði á velferðarkerfinu eða samfélaginu með öðrum hætti. Því er einmitt þveröfugt farið. Við hefðum aldrei ráðið við þennan mikla efnahagslega vöxt, sem við höfum farið í gegnum á undanförnum árum, nema einmitt með miklu innflæði innflytjenda sem sækja hér í störf. Við erum einmitt svo lánsöm að við erum með eina hæstu ef ekki allra hæstu atvinnuþátttöku innflytjenda í hinum vestræna heimi. Hér er um að ræða hóp sem er að koma hingað fyrst og fremst til að vinna, gengur yfirleitt nokkuð vel að fá vinnu og leggur gríðarlega mikið af mörkum til samfélagsins. Því til viðbótar benda flestir mælikvarðar til þess að þeir nýti velferðarkerfið mun minna en við heimamenn, ef svo mætti orða það. Sú mýta á ekki við nokkur rök að styðjast. Þetta skiptir miklu máli í þessari umræðu. En það breytir því ekki að það er mjög mikilvægt að hlúa betur að atvinnumálum innflytjenda. Þar eru ýmsir brestir enn í okkar kerfi. Það gengur oft illa að fá menntun viðurkennda, fólk fær ekki störf við hæfi. Við þurfum að horfa til þess hvernig við getum rutt úr vegi þeim hindrunum sem þar kunna að vera. Þetta þekkjum við í heilbrigðiskerfinu, í sérhæfðari störfum. Það gengur oft mjög erfiðlega fyrir fólk með mjög mikla reynslu, mjög mikla og góða menntun, að fá hana metna hér og fá störf við hæfi þegar hingað er komið. Það skiptir miklu máli að við gerum betur í þeim efnum.