146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:15]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Þegar kemur að einföldun á örorkukerfinu horfum við í fyrsta lagi til sambærilegra breytinga og gerðar voru á ellilífeyriskerfinu þar sem nú er í raun byggt á einni lífeyristegund í stað fjölmargra áður, og einnig skerðingarprósentu, 45% skerðingarprósentu sem er óháð tekjum. En síðan var í meðförum þingsins tekið upp 25 þús. króna frítekjumark á allar tekjur.

Þegar kemur að báðum þessum kerfum, örorkulífeyriskerfi og ellilífeyriskerfi, skiptir einmitt gríðarlega miklu máli að við horfum til þess að það séu réttu hvatarnir og að fólk sem er að reyna að fóta sig á nýjan leik, er að reyna að snúa aftur til vinnu, njóti ávinnings af því og að ekki sé byrjað að skerða strax. Í örorkulífeyriskerfinu lifir þó enn króna fyrir krónu-skerðing, sem er mjög bagalegt, svo ekki sé sterkar að orði kveðið og er mjög brýnt að breyta.

Þarna skiptir líka miklu máli samráð við aðra aðila í þessu kerfi okkar, eins og hv. þingmaður nefndi, sér í lagi sveitarfélögin og félagsaðstoð. Það má raunar horfa til fjölda annarra úrræða. Þegar ég horfi á örorkulífeyriskerfi okkar líður mér stundum eins og menn séu að kasta á milli sín heitri kartöflu. Þar sé ekki verið að horfa til raunverulegra úrræða. Á endanum leysum við málið með því að tryggja fólki framfærslu með örorkulífeyri. En við fjárfestum allt of lítið í öðrum úrræðum til að hjálpa fólki til virkni á ný. Það er það sem sú endurskoðun sem fram undan er mun fyrst og fremst miða að.

Varðandi NPA verð ég að fá að koma aðeins inn á það í síðara svari.