146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:17]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þá vil ég ræða við hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra um málefni aldraðra. Eins og hann kom inn á er það svipað dæmi, við þurfum að gera betur þar.

Ég ætla að lesa aðeins upp úr áætluninni, með leyfi forseta:

„Framtíðarsýn málefnasviðsins er að aldraðir njóti fullra lífsgæða á efri árum og geti framfleytt sér sjálfir með tekjum sínum, einkum úr lífeyrissjóðum og/eða með vinnu. Þeir sem geta það ekki fái greiddar sér til framfærslu bætur frá almannatryggingum í samræmi við lögbundin réttindi, auk annars stuðnings opinberra aðila. Með greiðslum, þjónustu og stuðningi opinberra aðila verði öldruðum gert kleift að framfleyta sér og lifa sjálfstæðu lífi.“

Ég viðurkenni að ég er mjög ánægð að við skulum setja okkur slíka framtíðarsýn og tek fram að þau markmið sem hafa verið skilgreind mælanleg hér eru að hækka heildartekjur ellilífeyrisþega og auka atvinnuþátttöku aldraðra og möguleika á sveigjanlegum starfslokum. Ég óska eftir að heyra aðeins frá hæstv. ráðherra um hvernig hann sér fyrir sér að við munum vinna að þessum markmiðum, hversu hratt og í hvernig áföngum verði unnið.

Svo er það síðasta og kannski léttasta spurningin. Ég vil koma aðeins inn á húsnæðismál og húsnæðisstuðning. Eins og við vitum er húsnæðismarkaðurinn algjört rugl og er að draga marga skjólstæðinga okkar til fátæktar. Þótt lítið sé rætt um markmið og aðgerðir í fjármálaáætlun eru þó sett fram tvö markmið, með leyfi forseta:

„1. Landsmenn eigi þess kost að eignast eigið húsnæði og hafi val um búsetuform.

2. Einfaldari húsnæðisstuðningur.“

Við erum nýbúin að fara til Íbúðalánasjóðs og fá smákynningu um breytt hlutverk þar. Ég óska eftir að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann telji að þær breytingar sem standa til muni koma til með að styðja við markmiðin sem hér eru sett fram og hvernig hann sjái fyrir sér að það muni ganga með tilliti til markmiðanna. Ef tækifæri gefst væri kannski gott að heyra hvað er í bígerð núna.