146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:20]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Forseti. Kannski ég fái þá að halda áfram þar sem frá var horfið varðandi NPA. Í grófum dráttum er verið að nær tvöfalda það fjármagn sem til þessa málaflokks rennur og stórfjölga þar af leiðandi þeim samningum sem hægt verður að gera og lögbinda þjónustuna sem slíka. Þarna er stærsta vandamálið enn það að við rennum blint í sjóinn varðandi það hver eftirspurn eftir þessari þjónustu getur orðið. Þetta er kostnaðarsamt úrræði. Þarna er enn ágreiningur milli ríkis og sveitarfélaga sem verður að leysa, það er afar brýnt. En ég held líka að horfa þurfi til þess að þarna eru tvö mikilvæg sjónarmið. Við erum að tryggja fólki sjálfstætt líf og á endanum líka að tryggja, að ég tel, mun manneskjulegra en líka hagkvæmara úrræði. Þarna er verið að gera fólki kleift að búa í oft og tíðum eigin húsnæði í stað þess að vera í einhvers konar þjónustuíbúðum á vegum sveitarfélaga. Fjölmörg sveitarfélög telja að þetta sé miklu betri þjónusta og líka hagkvæmari.

Varðandi aldraða og það fyrirkomulag allt saman held ég að það sé afar brýnt. Við erum á þeim tímum núna að almenna lífeyrissjóðakerfið er að taka við lífeyriskostnaði samfélagsins. Það ber nú þegar liðlega 70% þess kostnaðar og mun fara mjög vaxandi að hlutfalli á næstu árum. En við erum enn að glíma við það umhverfi að það er ekki orðið fullburða kerfi. Kjör aldraðra munu batna til mikilla muna á næstu árum fyrir tilstuðlan aukins lífeyrissparnaðar. Bilið þurfum við hins vegar að brúa bæði með því að styrkja almannatryggingakerfið (Forseti hringir.) en ekki síður með því að auka sveigjanleikann til þess að aldraðir geti starfað áfram ef þeir geta og njóta þá ávinnings af því.