146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:31]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Þá eru það umhverfis- og auðlindamálin. Þau skipta mig og ríkisstjórn Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks miklu máli eins og kemur skýrt fram í stjórnarsáttmála hennar. Það kemur líka mjög skýrt fram í fjármálaáætluninni sem við ræðum hér í kvöld.

Loftslags- og umhverfismál vefa sig þétt inn í mörg af málefnasviðunum enda eru þau í eðli sínu þverfaglegt viðfangsefni sem öll stjórnsýslan og ákvarðanataka þarf að taka mið af.

Eitt af stóru málum áætlunarinnar er fyrirhuguð 100% hækkun á kolefnisskatti sem áætlað er að taki gildi 1. janúar 2018 og möguleikar á auknum grænum sköttum í takti við áherslur í loftslagsmálum og umhverfisvernd. Annað stórt umhverfismál er gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum og eftirfylgni með henni.

Þótt loftslagsmálin séu í forgrunni míns ráðuneytis þessar vikurnar eru að sjálfsögðu fjölmörg önnur mikilvæg viðfangsefni á okkar könnu. Þar vil ég fyrst nefna gerð heildstæðrar áætlunar um vernd miðhálendisins. Einnig aðgerðir til að bregðast við stöðugt vaxandi álagi á náttúruna af völdum ferðamanna og hvernig við tryggjum sjálfbæra nýtingu lands, endurheimt vistkerfa og vernd náttúrunnar.

Efling vöktunar og varnaraðgerða vegna náttúruvár er sömuleiðis gríðarlega mikilvægt verkefni. Hætta á mann- og eignatjóni af völdum náttúruvár hefur vaxið umtalsvert undanfarin ár og mun halda áfram að vaxa samhliða auknum fjölda ferðamanna, áhrifum loftslagsbreytinga á veðurfar og aukinnar skjálftavirkni í megineldstöðvum.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið setur sér því eftirfarandi megináherslur til næstu fimm ára:

Í fyrsta lagi munum við standa að gerð og innleiðingu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum fyrir Ísland til ársins 2030 í því skyni að uppfylla ákvæði Parísarsamkomulagsins og móta stefnu í loftslagsmálum til ársins 2050. Áætlunin verði gerð í víðtækri samvinnu, m.a. við önnur ráðuneyti, Alþingi, fyrirtæki og almenning. Mótun á utanumhaldi verkefnisins er í fullum gangi og ég mun mjög fljótlega leita til þingsins varðandi skipan í starfshópa þess. Stefnt er að því að aðgerðaáætlunin verði tilbúin fyrir lok árs 2017.

Í öðru lagi leggjum við áherslu á að efla stjórn nýtingar á viðkvæmum og mikilvægum svæðum með uppbyggingu viðeigandi innviða, friðlýsingum, gerð stjórnunar- og verndaráætlana, auk gerðar sérstakrar áætlunar um vernd miðhálendisins sem mun nýtast við undirbúning við stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Við stefnum á að fjölga friðlýstum svæðum um tíu fram til 2020 og ástandsmynda öll friðlýst svæði landsins með tilliti til þolmarka þeirra fyrir sama tíma. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið fær úthlutað 400 millj. kr. aukningu til að hefja framkvæmd landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Einnig er ráðuneytinu tryggt fjármagn til að ljúka byggingu gestastofu við Vatnajökulsþjóðgarð, á Kirkjubæjarklaustri, árið 2019 sem og að ljúka stækkun gestastofu og öðrum framkvæmdum á Hakinu á Þingvöllum.

Í þriðja lagi er lögð áhersla á að öll landnýting og landbætur, svo sem landgræðsla, skógrækt eða endurheimt framræsts votlendis, taki mið af náttúruvernd og vernd líffræðilegs fjölbreytileika. Þessi viðmið eiga einnig að vera höfð í forgrunni við allar loftslagsaðgerðir tengdar kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri.

Í fjórða lagi er áhersla á græna hagkerfið og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Við stefnum á að hefja innleiðingu á svokölluðu hringrásarhagkerfi þar sem markvisst er komið í veg fyrir myndun úrgangs og stuðla þannig að aukinni verðmætasköpun um leið og dregið er úr álagi á náttúruna. Við ætlum okkur að efla vöktun og varnir gegn náttúruvá, til að mynda með því að þétta mælinet vöktunarkerfa vegna hennar á svæðum sem eru skilgreind sem forgangssvæði. Við stefnum einnig á að ljúka allt að tíu verkefnum vegna ofanflóðavarna fyrir árið 2022.

Í fimmta lagi er lögð áhersla á einföldun regluverks og aukna skilvirkni í stjórnsýslu með notkun rafrænna lausna ásamt áherslu á samþættingu verkefna og aukna samvinnu stofnana.

Eins og sést í fjármálaáætluninni er áætlað að framlög til málefnisins umhverfismála aukist um ríflega 1 milljarð frá árinu 2017–2018. Ég tel það mjög jákvætt og gefa góð fyrirheit um að ég geti fylgt áherslumálum míns ráðuneytis eftir eins og stefnt er að. Síaukið fjármagn til verkefna á vegum ríkisins er ekki alltaf rétta leiðin til aukinna aðgerða. Það þarf fyrst að sýna ábyrga fjármálastjórn og viðhald, forgangsraða og samþætta eins og hægt er áður en krafan um aukin framlög er sett fram. (Forseti hringir.)

Ég vil þó einnig undirstrika að það fjármagn sem sett er í umhverfismál skilar margföldum langtímaábata því það kostar meira að gera ekki neitt.