146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:36]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Við hæstv. ráðherra umhverfismála erum sammála um mikilvægi umhverfis- og loftslagsmála og ég geri ráð fyrir að hún sé mjög áhugasöm um framfarir í þeim efnum næstu 4–5 árin. Markmið okkar í loftslagsmálum miða við 2030, og það merkir einfaldlega að þessi mögru ár ríkisfjármálaáætlunar taka til fimm af þeim tæpu 13 árum sem til stefnu eru, þ.e. nærri 40% af ráðstöfunartímanum. Augljóslega skiptir miklu máli að hann sé nýttur til hins ýtrasta. Þá er mikilvægt að muna að við vitum nóg til að eyða kröftum í frekari umræðu, greiningar og 10–15 áætlunargerðir, og svo samhliða í mjög svo auknar beinar aðgerðir. Það legg ég áherslu á, aðgerðir, fram yfir talið eða hugræna vinnu, vegna þess hve stuttur tíminn er og við enn langt frá skynsamlegum markmiðum. Í ríkisfjármálaáætluninni eru mörg umhverfismál afgreidd á tíu síðum með fimm megináherslum og tíu markmiðum sem eru mörg góðra gjalda verð, enda vandséð að hægt sé lengur að syndga í þessum brýna málaflokki þegar kemur að endamarkmiðum og jafnvel leiðunum þangað. Allt kostar þetta peninga sem þarna er upp talið.

Kostnaðardálkar í fimm töflum eru tómir og ekkert hægt að meta í fjármálum nema eina tölulínu allra aftast. Þar kemur fram að um þúsund nýjar milljónir ganga til geirans 2018. Það er mjög gott. En eftir það lækka framlög næstu tvö ár á milli ára en hækka síðan tvö síðustu árin um 200–300 milljónir. 14–16 milljarða kr. umhverfi sem tvö síðastliðin ár eru til marks um felur í sér of hæga framþróun. Þess vegna dugar ekki að setja 3–3,5 nýja milljarða á heilum fimm árum jafnt í beinar framkvæmdir til að minnka losun og binda kolefni sem og til byggingar í þjóðgörðum og landvörslu. Þessi upphæð þyrfti að minnsta kosti að vera tvöföld, jafnvel þreföld. (Forseti hringir.) Þeir peningar eru til hjá þeim best settu í samfélaginu.