146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:47]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður velur, eins og aðrir hér á undan, að miða við árið 2018 og þá tölu sem þar kemur fram, en í lokaniðurstöðu sinni ályktar hann sem svo að þetta sé í rauninni um 250 millj. kr. hækkun en gleymir þeim milljarði til viðbótar sem við setjum í núna og mun halda áfram. Er það ekki? Er ekki sanngjarnt að halda honum með? Það er hækkunin. Og svo þá endahækkunin, milljarður og 250 milljónir til eða frá. Mér finnst bara mikilvægt að við ræðum þetta eins og þetta er.

Hv. þingmaður kom inn á aðgerðaáætlunina. Mér fannst hann spyrja hvað liði vinnunni. Þetta er afskaplega mikilvæg vinna. Því er til að svara að frá því ég tók við embætti 10. janúar hefur þetta verið fyrsta mál á dagskrá, efst í mínum bunka, alltaf, alla daga. Við erum að leggja til að þetta verði ekki bara unnið í umhverfisráðuneytinu heldur þvert á öll ráðuneyti, eða þau helstu þar sem þessi málefnasvið heyra undir, iðnaðarráðuneytið, samgönguráðuneytið, fjármálaráðuneyti, forsætisráðuneyti og svo áfram. Við erum að leggja upp svoleiðis verkefnahóp, undirhópa, faghópa, undir málefnasviðin, eða þar sem úrbóta er þörf og hægt er að grípa til aðgerða. Við leggjum áherslu á og raunar er það verkefni næstu viku að kalla eftir því hjá stjórnarandstöðunni (Forseti hringir.) hvort hún vilji koma að þeirri vinnu, inn í þessa faghópa. Ég vonast eftir að það hljóti góðan hljómgrunn því að loftslagsmálin eru þvert á alla pólitík.