146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:50]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Frú forseti. Já, það er alveg rétt. Auðvitað á þetta að vera þvert á ráðuneyti. Hins vegar finnst mér einhvern veginn eins og forgangsröðunin sé alltaf sú að þetta geti mætt afgangi. Það er alltaf talað um jafnvægi, stöðugleika og annað slíkt, aldrei talað um framtíðina og þá sjaldan að talað er um hana er hún til fimm ára. Það hefur mér lærst á þeim mánuðum mínum hér í hlutverki þingmanns.

Ég er nefnilega ekki viss um að öndunarfærasjúklingar framtíðarinnar muni kunna okkur miklar þakkir fyrir að hafa borgað niður skuldir alveg ótrúlega hratt núna árin 2017–2019 og héðan í frá meðan við vanræktum loftslagsmálin.

Mig langar að nefna atriði sem kemur fram í aðgerðaáætlun um orkuskipti sem er náttúrlega hluti af þessum heildarpakka öllum saman. Þar er stefnt að því að hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum verði 40% árið 2030. Þar erum við að tala um 40%, einungis, segi ég, þrátt fyrir að í þeirri sömu aðgerðaáætlun sé fullyrt að fá eða engin ríki hafi jafn góð tækifæri til að rafvæða samgöngur. Ég er alveg sammála því. Fá eða engin ríki hafa jafn góð tækifæri til að rafvæða samgöngur. Mér þykir þetta ekki metnaðarfullt markmið.

Eftir því sem ég best veit eru opinberir aðilar fyrst og fremst enn að kaupa hefðbundin ökutæki í dag. Það er mjög slæmt. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvers vegna ganga stjórnvöld ekki á undan með góðu fordæmi, (Forseti hringir.) veita meiri efnahagslega hvata? Og ekur ráðherra umhverfis- og auðlindamála um á umhverfisvænum ráðherrabíl?